
„Í mínum huga kemur ekkert annað til greina en að eignir Samherja verði frystar núna strax á meðan á rannsókn stendur. Um er að ræða rannsókn á mögulegu mútubroti, peningaþvætti og skattalagabrotum. Hér er ekki um einhverja sjoppu að ræða heldur milljarðafyrirtæki með umtalsverð umsvif í fjölda ríkja og skattaskjólssvæðum.“
Þetta skrifar Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í stöðuuppfærslu á Facebook. Í færslunni minnir hún á að eignir dægurlagahljómsveitarinnar Sigurrósar voru frystar á meðan rannsókn á meintum skattalagabrotum stóð yfir.
„Þá tel ég heldur ekkert annað koma til greina en að sjávarútvegsráðherra og fyrrverandi stjórnarformaður Samherja stígi til hliðar á meðan á rannsókn héraðssaksóknara stendur enda málið algjörlega fordæmalaust.“
En sjávarútvegsráðherra, Kristján Þór Júlíusson, var áður stjórnarformaður Samherja og vann hjá útgerðinni í þinghléum.
Færsla Helgu Völu kemur í kjölfar umfjöllunar í þættinum Kveik í gærkvöldi, þar sem Samherji er sakaður um stórfellda spillingu í Namibíu. Sjá einnig hér: https://www.nutiminn.is/samherji-skellir-skuldinni-a-johannes/.