Quantcast
Channel: Nútíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8004

Árni Sam setur Netflix afarkosti: „Koma núna eða borga samninginn upp í topp“

$
0
0

Árni Samúelsson, einn af eigendum Sam-félagsins ehf., lýsti því yfir í janúar að ekki væri langt í að afþreyingarisinn Netflix myndi opna fyrir þjónustu sína hér á landi. Ekkert bólar á þjónustunni og Árni hefur sett Netflix afarkosti.

Viðskiptablaðið greinir frá því að stefnt hafi verið að því að opnað yrði fyrir þjónustu Netflix á Íslandi seint á þessu ári. Sá tímarammi mun ekki standast. Árni segist í samtali við Viðskiptablaðið ekki hafa heyrt frá forsvarsmönnum Netflix í mánuð en hann býst við að ræða við þá í Los Angeles eftir áramót.

Þeir fengu ársfrestun á því að láta samninginn sem við gerðum við þá taka gildi. Við veittum það og seldum þeim 250 myndir. Þeir fá ekki annan frest á að koma til Íslands. Annað hvort koma þeir núna eða að þeir borga samninginn upp í topp.

Samkvæmt Viðskiptablaðinu verður opnað fyrir aðgang að Netflix á Íslandi á fyrstu mánuðum næsta árs, ef allt gengur að óskum.

Sjá einnig: Netflix prófar að loka á notendur sem fara krókaleiðir að áskrift

Netflix boðaði komu sína til Íslands á vefsíðu sinni í ágúst. „Þjónusta okkar verður í boði á Íslandi fljótlega,“ sagði í skilaboðum á vefsíðu Netflix en það var í fyrsta skipti sem fyrirtækið boðaði komu sína til landsins opinberlega.

Nútíminn sagði fyrstur fjölmiðla frá því í október á síðasta ári að Netflix væri að vinna að því að opna fyrir þjónustu sína hér á landi.

Í febrúar var svo greint frá því að Sam-félagið hafi náð samningum við Netflix. Þá var gert ráð fyrir að opnað verði fyrir þjónustuna seint á þessu ári. Árni Samúelsson staðfesti þetta við fréttastofu RÚV.

Áður en Netflix opnar fyrir þjónustu sína hér á landi þarf fyrirtækið að semja um sýningarréttinn á kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og barnaefni.

Viðræður afþreyingarrisans við íslensku fyrirtækin hófust í fyrra. Búið er að semja við Sam-félagið en í janúar var greint frá því að viðræður við Senu væru langt komnar en að viðræðurnar við Myndform séu ekki eins langt komnar.

Að minnsta kosti 20 þúsund íslensk heimili eru tengd Netflix í gegnum krókaleiðir, samkvæmt könnun MMR fyrir Viðskiptablaðið.

Netflix hyggst semja um notkun á íslenskum textum. Heimildir Nútímans herma að fyrirtækið sé þegar byrjað á því og Íslensk fyrirtæki sem sjá um textun séu að þjónusta Netflix.

 
Source: Nútíminn

Þessi frétt Árni Sam setur Netflix afarkosti: „Koma núna eða borga samninginn upp í topp“ birtist fyrst á Nútíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8004